Tæknisvið
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, fjórða iðnbyltingin og hnattrænar áskoranir voru meðal annars hafðar til hliðsjónar þegar helstu áherslur rannsókna og samstarfs tæknisviðs voru skilgreindar. Þær áherslur eru: sjálfbærni, gagnavísindi í heilbrigðisþjónustu, rekjanleiki og máltækni. Með því að skilgreina þessar fjórar áherslur vill starfsfólk sviðsins samræma og auka áhrif rannsókna ásamt því að efla samvinnu og samskipti við aðra háskóla og atvinnulífið.
Í rannsóknum við sviðið er fengist við líftækni, vefjaverkfræði, bestun, máltækni, fjártækni, gervigreind, rafmagnsverkfræði, nanótækni, iðustreymi, ákvörðunarfræði, svefn, samskipti manns og tölvu og margt fleira. Rannsóknir eru sífellt þverfaglegri og fara fram innan rannsóknarsetra sem eru tólf talsins.